Ljóð eftir Níkos Gatsos
Nikos Gatsos (Νίκος Γκάτσος) fæddist árið 1911 á Pelópsskaga og dó 1992. Með ljóðabók sinni Amorgos (Αμοργός) markaði hann þáttaskil í módernískri ljóðagerð á grísku með því að tengja saman súrrealisma og efni úr alþýðukveðskap. Hann gat sér líka gott orð fyrir þýðingar á leikritum, m.a. eftir Federico García Lorca, August Strindberg og Eugene O'Neill. Þekktastur er hann þó fyrir mikinn fjölda söngtexta einkum við lög eftir Manos Hgatsiðakis (Μάνος Χατζιδάκις, 1925 – 1994). Söngurinn um Kemal er einn margra texta sem hann samdi við lag eftir þetta vinsæla tónskáld.
Kemal
Heyrið nú söguna um Kemal, ungan prins í Austurlöndum sem var afkomandi Sindbaðs sæfara. Hann hugðist geta breytt gangi heimsins. En beiskur er bikar drottins og dimmt er í sálum mannanna.
Eitt sinn var í Austurlöndum
eymdarlíf og búin snauð,
vatnið fúlt og fólk í böndum,
félaust og það skorti brauð.Oft í Mósúl og Basara
af auga tár í sandinn hné
þar sem börnin standa og stara
stúrin undir pálmatré.Konungborinn kappinn heyrði
kvæðagrátinn dægur löng
um skapadóm sem engu eirði,
óttalega dapran söng.Að betri dagar bráðum gæfust,
bundinn skyldi endi á neyð,
upp að tímar aðrir hæfust,
Allah sór hann dýran eið.Spurðu dirfsku drengsins góða
drottinvöld og fyrtust við.
Rak hann fjónum ræsir þjóða
í rándýrsham með grimmdarlið.Frá Tígris allt að Efrats grundum
illum kjöftum svikarann
hröktu líkir ljótum hundum
lífs að fanga dauðamann.Rökkum þeim fór víst að vonum,
veiðin tókst þeim illa fans,
snöru vildu herp'að honum,
höfð' ann með til kalífans.Svarta mjólk á morgni gráum,
myrkur saup hann yfrið nóg,
gálga áður undir háum
andann hinsta sinni dró.Upp' ann kom að himna hliði
horfin sorg og mæða var,
spurt ég hef með spekt að biði
spámaðurinn kappans þar.Saman hönd í hönd þeir gengu
í himnarann um skýja grund.
Af stjörnuljósi leiðsögn fengu,
er leiddust þeir á drottins fund.Sjálfan Allah Sindbaðs niðji
sá og heyrði alvalds dóm,
hugur mannsins margt þó iðji
mun hans viska tál og hjóm:„Um veröld er það segin saga
að síst mun enda jarðar neyð,
því járni og eldi alla daga
'ún áfram ryður sína leið.“Góða nótt Kemal. Þessi heimur breytist aldrei.
Góða nótt.
Hér fer á eftir tilraun til að þýða eitt ljóð úr Amorgos. Það er ort undir hætti sem minnir á grísk þjóðkvæði og rímur þar sem hver lína er fimmtán atkvæði.
Inn'í garði gremju og harms
Inn'í garði gremju og harms, geislar sólar aldrei skína
ormar birtast einir þar, ybba sig með gabb að stjörnum
hestar æxlast eins og grös, upp á mauraþúfum spretta
einnig flæðarmúsamor, mígur sæði, étur fugla.Inn'í garði gremju og harms, gengur nóttin ei til viðar
laufin öll sem eru þar, aðeins spýja táraflóði
skuggalegur skrattinn hjá, skundar til að ríða hundum
þar sem yfir blakkan brunn, blóði fylltan, hrafnar synda.Inn'í garði gremju og harms, gljái augans þornað hefur
heilinn fraus í höfuðskel, hjartað orðið var að steini
dauðra froska hold og húð, hanga í tönnum kóngulóar
út af sulti ýla þar, engisprettur draugs hjá fótum.Inn'í garði gremju og harms, grasið svarta vex í jörðu
en í maí og aðeins þá, eina kvöldstund blær í lofti
léttum fótum leið þar hjá, líkt og hljóðlátt tipl um engi
bára með sinn blíða koss, blæju hvítri skreytt á sænum.Ef þyrsta skyldi þig í vatn, þá við tökum ský og vindum
ef þú skyldir biðja um brauð, er best við slátrum næturgala
bíddu aðeins augnablik, eftir það mun rúgur skríða
blakkir himnar blika við, blómstra munu kóngaljósin.Sá ljúfi blær var litla stund, lævirkinn er horfinn sjónum
ásýnd slíka átti maí, upplit mánaljóssins hvíta
léttum fótum leið þar hjá, líkt og hljóðlátt tipl um engi
bára með sinn blíða koss, blæju hvítri skreytt á sænum.