Atli Harðarson
Um prestinn, levítann og okkur hin

Í tíunda kafla Lúkasarguðspjalls er eftirfarandi saga: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.“
   Hvað er hægt að segja um prestinn og levítann í þessari sögu? Hljóta þeir ekki að fá svipaða einkunn og menn sem fara um fáfarinn veg og koma þar að sem einhver er í lífshættu eftir að hafa velt bíl sínum, en aka hjá í stað þess að hringja á sjúkrabíl og reyna að aðstoða þann slasaða? Samkvæmt íslenskum lögum eru þeir sekir um nokkuð alvarlegt afbrot og hægt að dæma þá í allt að tveggja ára fangelsi því í 221. grein almennra hegningarlaga (númer 19 frá 1940) segir: „Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“
   En hvað ef sá nauðstaddi er við fjölfarinn veg og presturinn og levítinn sveigja hjá ásamt þúsund öðrum? Gæti þá hver vegfarandi afsakað sjálfan sig með því að segja: „Ég var að flýta mér og hélt að einhver hinna mundi koma til hjálpar.“ Getur verið að ábyrgð hvers og eins hverfi við það eitt að nógu margir séu á ferð? Að sjálfsögðu er manni heimilt að halda sína leið ef hann sér að þegar hafa nógu margir staðnæmst og eru boðnir og búnir að hjálpa. En ef slasaði maðurinn liggur einn utan vegar og enginn sinnir honum, verður fanturinn sem sveigir fram hjá minni fantur fyrir það eitt að mörg önnur álíka ómenni fari sömu leið?
   Ef til vill eru það málsbætur ef sá sem sveigir fram hjá telur fullvíst að einhver annar komi til hjálpar. En þær málsbætur hljóta að vera léttvægar ef hann sér að hinir halda sína leið án þess að gera neitt. Til að presturinn og levítinn geti afsakað sig með því að segjast hafa haldið að aðrir mundu hjálpa verða þeir í raun og veru að hafa álitið það öruggt mál og þetta álit verður að styðjast við eitthvað annað en tóma óskhyggju og sjálfsblekkingu. Lygi réttlætir ekki aðgerðaleysi. Ef eitthvað er bætir hún gráu ofan á svart.
   Þau dæmi sem hér hafa verið til umræðu snúast um aðstæður þar sem einhver kemur að manni í lífsháska og getur hjálpað honum án þess að stofna sjálfum sér eða öðrum í hættu. En hvað ef sá nauðstaddi er langt frá okkur og við vitum af honum t.d. vegna þess að það er eftirlitsmyndavél þar sem hann er staddur og við sjáum neyð hans á sjónvarps- eða tölvuskjá? Hverju getur það breytt? Hugsum okkur að ég sé staddur framan við tölvuskjá hinu megin á jörðinni, heimsækni www.akranes.is og smelli á vefmyndavélina af Akraneshöfn og sjái bíla lenda í árekstri eða barn detta í sjóinn. Bæri mér ekki sama skylda til að gera eitthvað, til dæmis að hringja í neyðarlínuna, eins og ef ég væri sjálfur á vettvangi?
   Ef við álítum prestinn og levítann í sögunni vera óþokka og teljum það litla afsökun fyrir þá þótt fleiri hrottar fari um sama veg og ef við álítum líka að skyldan til að hjálpa manni í neyð sé ekki bundin því að fjarlægð í metrum sé minni en einhver tiltekin tala, hvað eigum við þá að halda um alla þá sem vita af lífsháska fólks í fjarlægum löndum en aðhafast ekkert? Hvernig er hægt að taka venjulegt siðferði alvarlega og láta sér samt í léttu rúmi liggja þótt fjöldi fólks sé í bráðri lífshættu eða búi við ýtrustu neyð? Slíkt sinnuleysi virðist bæði fáránlegt og ömurlegt.
   Kannski er ekkert einfalt mál að skipuleggja árangursríkar aðgerðir til að bjarga fólki sem býr við hungur eða annan lífsháska í fjarlægum löndum. Vel má vera að vanhugsuð framtakssemi í þeim efnum geri stundum illt verra og ef til vill fær fámenn þjóð eins og Íslendingar litlu áorkað. Það getur líka verið að presturinn og levítinn í sögunni hafi hugsað með sér að þeir séu nú engir sérfræðingar í skyndihjálp og maðurinn deyi líklega hvort sem þeir ómaka sig við að reyna að bjarga honum eða ekki. Það er auðveldara og þægilegra að blekkja sjálfan sig með fyrirslætti og viðbárum af þessu tagi heldur en að viðurkenna undanbragðalaust að við getum komið fjölda fólks til hjálpar með hóflegri fyrirhöfn og litlum kostnaði og höfum enga almennilega afsökun fyrir að gera það ekki.
   En hvað eigum við að leggja mikið á okkur fyrir ókunnugt fólk? Ef fámennur hópur manna telur skyldu sína að gefa peninga til hjálpar öllum sem eru í nauðum staddir er hætt við að peningar þeirra gangi fljótt til þurrðar. Hvar á að setja mörkin? Ég hef ekki neitt einfalt svar við þessu en svona almennt og yfirleitt er heppilegt að hver og einn fylgi reglum sem leiða til farsældar ef allur þorri manna fer eftir þeim. Viðmið Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir að ríkar þjóðir verji 0,7% þjóðartekna til þróunarhjálpar. Dugi þetta til að hjálpa flestum sem eru í lífshættu vegna skorts geta þeir sem annað hvort gefa 0,7% af tekjum sínum að eigin frumkvæði eða gegnum skatta ef til vill hugsað með sér að þeir hafi gert skyldu sína. Ég skal ekki um það dæma hvort 0,7% er rétt tala en framlag Íslendinga er að mér skilst ekki nema brot af því og talsvert lægra hlutfall af þjóðartekjum en hin Norðurlöndin gefa í neyðaraðstoð og þróunarhjálp.
   Ég nefndi að menn ættu að fylgja reglum sem leiða til farsældar ef almennt er farið eftir þeim. Önnur regla sem oft er vísað til í umræðum um siðferði er að menn eigi að koma fram við aðra eins og þeir vilja að aðrir komi fram við sig. Nú kann að virðast fjarlægur möguleiki að við þurfum á neyðarhjálp frá útlöndum að halda og kannski hugsa sumir sem svo að okkur geti staðið á sama hvort aðrir vilja hjálpa okkur því við þurfum enga hjálp. En allt er í heiminum hverfult og þótt við búum við góð kjör núna geta þau brugðist. Hér geta t.d. orðið jarðeldar og náttúruhamfarir sem stofna lífi fólks í hættu. Ef slíkt gerist verður þá ekki auðveldara fyrir okkur að þiggja aðstoð kinnroðalaust ef við getum sagt með góðri samvisku að við höfum sjálf lagt okkar af mörkum þegar betur áraði hér en aðrir þurftu á hjálp að halda?